Thursday, February 25, 2010

Íslenska Ólympíuleikahúfan


Jæja, þá er Svíaríki orðið heltekið af hekl-æði. Húfu hekl-æði. Ólympíuhúfu hekl-æði.

Eftir því sem sænsku Ólympíufararnir vinna fleiri verðlaun á Ólympíuleikunum í Vancouver magnast æðið og nú er svo komið að blátt og gult garn (af rétta merkinu: Eskimo frá Drops) fæst hvergi, og heklunál númer 8 er uppseld í landinu - "Slutsåld i hela riket!". Blöðin segja frá sveittum garnbúðareigendum sem hafa ekki við að svara í símann: "Nei, því miður, blátt og gult garn kemur ekki aftur fyrr en í viku 10...., og nei, við eigum enga heklunál númer 8 til því miður".

Sérstakur fatnaður eða Collection var hannað á sænsku Ólympíufarana, alls 60 misunandi flíkur, en engin þeirra hefur fengið eins mikla athygli og heklaða húfan í sænsku fánalitunum, eða "OS mössan". Vissar flíkur eiga að notast á verðlaunapalli, þar á meðal er heklaða Ólympíuhúfan, þannig að hún hefur birst á ansi mörgum myndum í blöðum og sjónvarpi undanfarið hér í Svíþjóð.

Við hérna Íslendingarnir á Kantarellvägen í Vallentuna gátum ekki horft uppá þetta aðgerðalaus og grófum því fram plötulopann í réttu litunum (þrefaldan og heklunál nr.10). Gátum ekki látið hverfið verða algjörlega blá-gult á hausnum án þess að hreyfa legg né lið.

Nú vill svo til að blessaður plötulopinn er svolítið spes, þannig að mér finnst hann ekki koma alveg nógu vel út í þessari húfu - hún getur t.d. ekki "lekið" rétt niður ofan á kollinum, og maður virðist vera soldið svona einsog biðukolla á hausnum með hana frekar en frækinn Ólympíuverðlaunahafi - sýnist mér eftir að hafa mátað hana, þannig að þetta heklerí hefur verið sett á hold.... :-) Erlu fannst merkilegast að ég skyldi eiga plötulopa í réttu litunum bara si svona inní skáp hér úti í Sverige - en ég er jú með garnlager heima hjá mér (manninum til þó nokkurs ama) sem hver meðal garnbúð væri stolt af.... :-)

Uppskriftin er mjög einföld. Garnið Eskimo frá Drops er notað í húfuna (en einnig má nota fíngerðara garn tvöfalt), og heklunál nr. 8. Fyrst er bara hekluð flöt plata ofaná höfðinu þar til næg vídd næst (20 cm), þá er heklað í hverja lykkju án útaukninga þar til húfan er orðin nokkuð síð (á að hanga soldið á hnakkanum). Hér að neðan er uppskriftin á sænsku einsog hún hefur birst í mörgum dagblöðum og á mörgum bloggum. Þýðing á heklhugtökunum er að finna hjá Garnstudio. Í þessari uppskrift er heklað með fastalykkjum, en þeir sem til þekkja segja að fyrirmyndin sé hekluð með hálfstuðlum. Það er auðvelt að breyta því; bara hekla með hálfstuðlum, eftir uppskriftinni, þar til stykkið mælist 20 cm (ca. 40 lykkjur alls), hekla þá án útaukninga þar til rétt sídd fæst.

Góða skemmtun með hekleríð,
Yours truly i Sverige - Halldóra.









.

1 comment:

  1. hlakka til að sjá íslensku ólympíuhúfuna kláraða á hausnum á þér :))
    Erla

    ReplyDelete