Svona þæfðir vettlingar eru eiginlega algjört "must have" í íslenskum (og sænskum!) vetri. Þeir eru svo þéttir og hlýir, það fer ekkert í gegnum þá!
Bóndinn sá einhverja svakalega fína vettlinga í útivistarbúð hér í bæ sem hann langaði í. Þetta voru þæfðir ullarvettlingar, eitthvað erlent merki - og vissulega rándýrir. Svo hann lagði inn pöntun hjá prjónaranum sínum (Erlu!).
Ég hafði einu sinni áður prófað að þæfa lopavettlinga en sú tilraun mistókst allhrapalega! Vettlingarnir, sem áttu að vera afmælisgjöf til vinkonu minnar, svo að segja hurfu í þvottavélinni! Þeir pössuðu ekki einu sinni á 5 ára dóttur mína! Þeir urðu pínulitlir og harðir eins og steinn... Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég opnaði þvottavélina! En alla vega, ég vissi að einn daginn yrði ég að leggja aftur í vettlingaþæfingu, það myndi ekki þýða að flýja það forever... ;) Ég vissi sem var, að ég hafði sett umrædda vettlinga á of langt þvottaprógramm sem gerði það að verkum að þeir þæfðust alltof mikið. Þá er það víst staðreynd (frétti það eftir á) að hærusvartur litur þæfist víst mest af öllum, og vettlingarnir voru jú hærusvartir að lit.
Ég notaði uppskriftina hennar Halldóru af "Venjulegum vettlingum" úr Prjónaperlum nema stækkaði prjónana upp í nr. 6 og 7. Stroffið er prjónað á 6 og vettlingurinn sjálfur er prjónaður á 7. Ég notaði þrefaldan plötulopa því Viggi vildi fá vettlingana þykka. Svo fór ég í lopaafgangana mína og setti saman þetta fína kombó af ljósbláum, dökkbrúnum, rauðbrúnum og hvítum. Ég prjónaði fyrst einn vettling og setti í þvottavélina til að sjá hvernig þæfingin myndi heppnast. Ég stillti vélina á 30° og setti á stutt bómullarprógramm. Skellti einu litlu handklæði með í vélina. Spennan var í hámarki ... Vettlingurinn þæfðist vel í fyrstu umferð svo ég lagði í að prjóna hinn vettlinginn. Ég gerði þumalinn á þeim vettlingi úr öðrum lit og ruglaði röðinni á litunum í oddamunstrinu bara í gamni. Skellti honum svo í þvottavélina á sama prógramm. Vettlingurinn þæfðist vel nema þumallinn ekki! Mjög spes! Þumallinn var enn risastór! Hann var rauðbrúnn að lit og þá sá ég að sá litur í lopanum var ekki að þæfast eins vel og hinir. Litirnir þæfast sem sagt aðeins mismunandi... og sá rauðbrúni voðalega lítið. Ég tók því áhættuna og smellti vettlingunum báðum aftur í vélina, þeir máttu líka alveg við því, þeir voru enn svona í það stærsta. Pössuðu á Vigga en mættu alveg vera aðeins minni, svo við tókum sameiginlega ákvörðun um að taka þá svakalegu áhættu að skella vettlingunum aðra ferð í þvottavélina.
Þegar vettlingarnir komu úr þvottavélarferð nr. 2 voru þeir aðeins litlir en við teygðum þá bara vel til og þá smellpössuðu þeir á kallinn. Rauðbrúni þumallinn var hins vegar enn dálítið stór - en allt í lagi samt. Það er sem sagt hægt að teygja lopann mjög vel og móta hann eftir þæfingu, á meðan vettlingarnir eru enn blautir.
Niðurstaða:
Æðislegir skotheldir vetrarvettlingar. Og hver segir að vettlingar þurfi endilega að vera eins að lit báðir tveir?? ;)
Samantekt:
Uppskrift: Venjulegir vettlingar úr Prjónaperlum
Prjónar: Nr. 6 í stroffið, nr. 7 í vettlinginn sjálfan
Stærð: XL eftir eina ferð í þvottavélina en L eftir tvær þvottavélaferðir
Þvottur: 30° á stutt bómullarprógramm. Setja lítið handklæði með. Ef þeir eru enn of stórir eða þæfast illa eftir fyrsta þvott þá er um að gera að skella þeim bara aðra ferð. Takið strax úr vélinni eftir þvott til að hægt sé að móta þá og teygja ef þarf
Litir: Dökkbrúnn og ljósblár þæfast vel en rauðbrúnn illa
In the New York Times
-
Gotta brag a little… My knitting tours featured in the New York Times! You
can read the article here Pictures: Sigga Ella
The post In the New York Times ...
2 weeks ago
Ha ha ha... Þvílíkir tröllavettlingar þarna fyrir þæfingu...:-) !
ReplyDeleteEn mjög flottir eftir þæfinguna.
Mig langar líka í skothelda vettlinga! Pottþétt að hafa svoleiðis í skíðaferðinni núna í lok jan. Best að gramsa í lopalagernum eftir girnilegum litum. Læt ykkur svo vita hvernig þeir virka í -15 uppá fjöllum...
:-)
Vá, ég ætla að gera svona vettlinga en sleppi því að hafa rauðbrúnan lit :)
ReplyDeletePrófið að setja 3 tennisbolta í þvottavélina í staðinn fyrir handklæði.
/Halla
Vandamálið er ekki endilega bara rauðbrúnn, heldur öll kemískt lituð ull, hún þófnar ekki jafnmikið og ólituð ull í sauðalitunum.
ReplyDeleteVá, en flott! Takk fyrir þetta, hlakka mikið til að prófa :)
ReplyDelete