Thursday, January 28, 2010

Meiri (græn) garnlitun!

Dylon litirnir úr Þorsteini Bergmann

Jæja, þá ætla ég að segja ykkur frá ævintýralegu garnlituninni sem ég lagði í í gærkvöldi. Ég litaði kambgarn og einband með litum sem heita DYLON og ég keypti í verslun Þorsteins Bergmann á Skólavörðustígnum. Litirnir eru ódýrir, hvert box 250 kall minnir mig og samkvæmt leiðbeiningunum dugar það til að lita 250 grömm af efni/garni. Ég gat ekki staðist þetta og keypti 6 liti. Notaði einn í gærkvöldi: Ólívugrænan.

Maður setur einfaldlega vatn í pott, ég setti hér 2 lítra, leysir litaduftið upp í öðrum hálfum lítra og hellir út í. Magnið af vatninu fer jú aðeins eftir því hversu mikið garn á að lita. Ég vildi lita tvær dokkur af kambgarni: 100 grömm, og notaði því aðeins helminginn af litnum/duftinu í dollunni. Ég hitaði vatnið upp að suðu á hellunni. Maður á að setja eina matskeið af salti út í.... EN ég gleymdi því!

Ég hafði undið kambgarnið upp í svona lengjur og dýfði hluta af því ofan í pottinn (slökkti undir þegar suðan kom upp). Ég vildi hafa garnið mismikið litað og því fóru hlutar af garninu ofan í pottinn með um 15 mínútna millibili. Því lengur sem garnið er í litnum því sterkari og meiri litur fæst. Samtals litaði ég garnið í um 30 - 40 mínútur. Eftir það fannst mér nægur litur eftir í pottinum svo ég dýfði hreinlega hluta af heilli dokku af einbandi ofan í pottinn, nennti ekki að vinda hana upp, ákvað að athuga hvort þetta gengi svona líka. Og viti menn, þetta tókst líka, einbandið litaðist nokkuð vel og inni í dokkunni líka. Gott mál.

Í litaprósessnum hafði ég furðað mig á því hvað þessi "ólívugræni" litur væri ekki svo mikið ólívugrænn heldur meira venjulega grænn eða jafnvel blágrænn. Mjög fínn litur og allt það en ekki alveg eins og stóð á litadollunni... Svo þegar ég uppgötvaði (mjög seint, alveg í lokin) að ég hafði gleymt að setja saltið út í pottinn þá ákvað ég að setja saltið út í og athuga hvað myndi gerast. Og viti menn, liturinn varð ólívugrænn :) Jamm, liturinn sem sagt breyttist úr þessum dökkgræna í ólívugrænan svo saltið hefur greinilega áhrif á að liturinn komi rétt út. Hins vegar fannst mér liturinn án salts festast mjög vel í garninu svo það er ekki eins og saltið eða skortur á salti hafi haft mikil áhrif á festu.

Hér að neðan má sjá afraksturinn.
Þegar liturinn var orðinn ólívugrænn lék ég mér aðeins að því að dýfa hluta af einbandinu og kambgarninu ofan í það til að fá smá þannig keim líka á garnið.
Útkoman er ævintýralega GRÆN og skemmtileg :)

Næst er það svo kaffibrúnn, bordaux, jungle green, appelsínugulur og og og... :)
Og auðvitað prjóna Baby Surprise Jacket hennar Elizabeth Zimmermann úr græna kambgarninu á litla snúðinn minn, sjá mynd af peysunni hér á Ravelry (eru ekki annars örugglega allir búnir að skrá sig þar!?)

Grænar kveðjur,
Erla

p.s. mæli með að þið notið hanska við litunina, ég er með aðeins of græna fingur í dag!

kambgarnið í pottinum með litnum

búið að lita kambgarnið. Fyrst skildi ég eftir nokkra hvíta búta en dýfði þeim svo aftur ofan í síðar þegar liturinn var orðinn meira ólívugrænn. Vildi hafa þá ljósljósgræna í stað hvíta

einbandsdokkunum skellt út í í heilu lagi!

kambgarnið litað og tilbúið - og allt öðruvísi en ég bjóst við! Það er líka það skemmtilega við litunina

jömmí!

Hér má sjá einbandið - dokkan hér til hægri er lituð í litnum án salts (gleymdi því fyrst) en sú síðari í sama lit með salti. Hitaði bara litinn upp aftur og hafði dokkuna ofan í á meðan


og hér má sjá fyrri einbandsdokkuna sem var litun án salts, dökkgræn, en svo dýfði ég öðrum endanum ofan í ólívugræna litinn og þá varð þetta svona ævintýralega skemmtilegur alls konar grænn litur :)

eins og sjá má fer grænt þessum sæta snúði svo vel - hann mun fá BSJ á næstunni úr kambgarninu :)

15 comments:

  1. Takk fyrir að deila þessu með okkur! Ég fer sko beinustu leið niðrí Þorstein Bergmann á morgun að kaupa þennan lit! :-)

    ReplyDelete
  2. Ha ha ha ha.... græna putta!! (er ekki allt vænt sem vel er grænt... :-)?)

    Ótrúlega mikill munur á litnum með eða án salts.
    En útkoman er mjög flott í báðum tilvikum!

    ReplyDelete
  3. Ég er yfirkomin af aðdáun, þetta er meiriháttar, einhverntímann ætla ég að prófa.
    Halla

    ReplyDelete
  4. Mjög fallega grænt allt saman.

    ReplyDelete
  5. snilld... saltið hefur reyndar heilmikil áhrif sko,,, ef þú hefðir skolað litinn úr, hefði hann jafnvel haldið áfram að skolast bara úr, og barnið hefði jafnvel orðið grænt á hálsinum ef það hefði slefað mikið í hálsmálið... svo saltið er líka festir, en svo er reyndar mjög gott ráð að skola peysuna úr edikvatni eftir að þú ert búin að prjóna hana. þá ertu pottþétt með fastan lit. kemur ótrúlega vel út, hlakka til að sjá peysuna tilbúna..

    ReplyDelete
  6. Já Erla mín það er engin pressa á þér - en bloggheimur ALLUR bíður nú í ofvæni eftir peysunni.
    djóóók... he he.

    :-)

    ReplyDelete
  7. Þetta er alveg frábært og nú bíð ég spennt eftir að sjá prjónaafrakstrinn. :)
    Sérstaklega finnst mér spennandi hvernig kambgarnið kom út úr lituninni, ohh, ég verð að prufa þetta einhvern tíman. :D

    Takk kærlega fyrir að deila þessu ævintýri með okkur og gangi þér svo vel að prjóna úr garninu.

    Bestu kv. Nína Margrét :)

    ReplyDelete
  8. omg Steinunn - á barnið mitt eftir að verða grænt??? haha...
    Ég skolaði allan lit úr þar til vatnið var alveg tært, en spurning hvort ég leggi í edikskolunina þegar peysan er tilbúin, þá kannski hverfur allur liturinn!
    Já, þetta fer að verða spennandi... ég er búin að fitja upp - allt að koma!
    :)
    E

    ReplyDelete
  9. Vá hvað kambgarnið er flott á litinn!! En hvernig kom svo munstrið á litnum á einbandinu?? Er rosa spennt að sjá hvernig það er :)

    ReplyDelete
  10. já, ég veit ekki enn hvernig einbandið kom út... hef ekki undið dokkuna upp ennþá. En þetta lítur vel út já :)
    E

    ReplyDelete
  11. hvernig þurrkarðu garnið? Hengirðu það uppá snúru eða ertu með einhverja skemmtilega patent þurrkaðferð ?

    ReplyDelete
  12. Rosalega er þetta sniðugt hjá þér frænka! Mér finnst líka frábærir litirnir sem komu út úr heimalituninni, hugmyndaflugið! Karrí, bláber, te og rauðbeðusafi. Algjör snilld og ótrúlega flottir litir sem komu út úr því:)

    Kveðja, Þorgerður

    ReplyDelete
  13. takk þorgerður, nú þarftu bara að prófa!
    Ég þurrkaði garnið bara með því að setja það á ofninn... setti viskustykki undir. Virkaði!
    E

    ReplyDelete
  14. Gaman að sjá þessar tilraunir. Ég var löngu búin að kaupa mér fallega liti í Þorsteini Bergmann en þar sem þessi litur er ætlaður bómull hef ég ekki haf mig í verkið enn sem komið er. En Þetta virkar greinilega! Nú er bara að finna litadollurnar!!!

    ReplyDelete
  15. Respect and that i have a tremendous proposal: Whole House Remodel Cost home remodeling estimates

    ReplyDelete