Wednesday, January 13, 2010

Að lita garn

Karrý og Smartgarn

Hæ hó kæru prjónavinir!
Nýfæddur sonur minn fékk svo fallega lambhúshettu í jólagjöf frá bróður mínum og mágkonu. Hún var prjónuð í prjónavél móður mágkonunnar og það úr handlituðu garni. Garnið var litað með alls kyns berjum og var svo girnilegt og fallegt. Mágkonan, sem er byrjandi í prjóni, sagði ferlið einfalt svo ég mátti til með að prófa!

Ég fékk mömmu í lið með mér og saman prófuðum við í dag ýmsar kúnstir í garnlitun. Við ákváðum að prófa aðeins náttúruleg hráefni til að byrja með, þ.e. enga sérstaka keypta liti. Hráefnin sem okkur datt í hug að nota til að fá lit voru karrý, te, rauðbeðusafi, spínat og bláber. Garnið sem við prófuðum að lita var: Einband, Smart, bómullarheklugarn (sláturgarn) og kambgarn. Hér er litunarferlinu lýst ásamt því sem þið fáið að sjá árangurinn... sem kom svolítið á óvart!

Efni og tæki: Te, bláber, karrý, rauðbeðusafi (spínatið varð svo ógirnilegt í pottinum að við hættum við það!), borðedik, salt, hanskar, pottur, sleif, sigti, vatn, eldavél...og hvítt GARN ;)

Ferlið:
1.
Vindið garnið upp í lengjur.
2. Setjið hráefnið sem á að nota til litunar í pott ásamt vatni. Byrjið á því að nota minna vatn en meira og bætið frekar vatni út í finnist ykkur liturinn vera of sterkur. Styrkur litarins fer jú mikið eftir magni vatnins.
3. Setjið ca. 1 msk. af salti út í pottinn og dasssss af ediki.
4. Hitið upp að suðu. Látið sjóða/malla þar til ykkur finnst liturinn á vatninu í pottinum orðið ykkur að skapi! Sigtið þá hráefnið í pottinum úr vatninu (berin frá vatninu, tepokana frá vatninu) og notið aðeins vökvann til litunar.
5. Setjið garnið ofan í pottinn. Við slökktum ekki undir pottinum heldur lækkuðum bara hitann. Setjið aðeins hluta af garninu ofan í strax í upphafi ef þið viljið fá mislitt garn, þ.e. ekki allt eins á litinn heldur part af garninu dökkt og annan part ljósari. Því lengur sem garnið er ofan í, því dekkri litur kemur á það.
6. Tíminn sem það tekur að lita garnið er afar misjafn eftir litarefni. Karrýið litar mjög fljótt fannst okkur en bláberin og teið var mun lengur. Þetta getur þurft að vera í pottinum í 15 mínútur og upp í þess vegna klukkutíma... Fer eftir litarefni og garntegund (og þolinmæði haha!)
7. Skolið garnið upp úr köldu vatni og leggið til þerris.

Niðurstaðan okkar í þetta fyrsta sinn sem við litum garn á þennan hátt er eftirfarandi:

a. Það er fyrst og fremst ótrúlega skemmtilegt að lita sitt eigið garn - svo persónulegt og spennandi hver útkoman verður... :)
b. Bláber: Einbandið litaðist mjög illa af bláberjunum, og þó var það heillengi ofan í pottinum. Liturinn skolaðist nánast allur úr og einbandið endaði á því að vera föl-fjólubleikt. Hins vegar tókum við eftir því að spottarnir sem við bundum utan um einbandið (til að halda því saman til að það flæktist ekki) lituðust svakalega vel og fengu rosa flottan djúpfjólubláan lit, mjög girnó! Þessir spottar voru úr einhverju þýsku ullargarni sem við gripum til að binda... = Einbandið litaðist ekki en þýska baby ullararnið litaðist mjög flott. Spurning hvað Kambgarnið eða léttlopinn gerir... prófum það næst (var ekki til nægur litur í þetta sinn til að prófa það). Ég veit líka að Lanette litast mjög fallega og vel af berjum (lambhúshetta sonarins er úr Lanette). Heklugarnið mitt (bómullarband) varð pastelfjólublátt... sem reyndar hentar mjög vel til Frjálsmenagerðar svo það er bara gott mál :)
c. Karrý: Svínvirkar á einbandið! Og ábyggilega allt annað garn... liturinn er svo sterkur.
d. Te: Við notuðum bæði piparmyntute og svart te saman, niðurstaðan varð svona gulllitað/ljósbronsað Kambgarn, í raun mjög flott, en ekki sterkur litur. Hefði verið til í að fá eilítið sterkari brúnan. En mjög flott samt :) Heklugarnið varð ljós beige...
e. Rauðbeðusafi: Smartgarnið varð skemmtilega bleikt og rauðbleikt, heklugarnið (bómullar) varð ljósbleikt.

Hér má sjá myndir úr lituninni - reynið svo endilega sjálf og látið ímyndunaraflið ráða för með matvörur og liti ;) Þá er auðvitað líka hægt að kaupa sérstaka liti til að lita svona garn, t.d. hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustígnum í miðbæ Reykjavíkur. Við ætlum að prófa þá liti mjög fljótlega líka og rapportera!

Góða skemmtun...
Erla



Hráefnið

Móðir og barn ;) - undirbúa garnið fyrir litun

Kambgarn, einband og Smart

Búið að sjóða bláberin (í vatni og með ediki og salti) og fá fínan fjólubláan lit á vatnið



Einbandið mallar í litnum - fyrst er hluti settur ofan í, hann látinn malla í dágóða stund eða þar til garnið er orðið nokkðu vel litað, þá er næsti hluti settur ofan í o.s.frv.

Jömmí!! - já virkar girnó hér... en liturinn á einbandinu varð svo voðalega daufur. Virkar betur á aðrar týpur af ullargarni

Hér er einbandið litað með bláberjum, takið eftir því hvað spottarnir sem halda garninu saman eru fallega fjólubláir á meðan einbandið litaðist frekar dauflega. Samt alveg flott!

Mamma við pottana

Kambgarnið í teinu

Hér er heklugarnið - frá vinstri til hægri er það te, bláber og rauðbeðusafi

Gulllitað kamb

Smartgarn - karrý og rauðbeðusafi
Eins og sést á myndunum er ekki ýkja mikill litarmunur á garninu hjá okkur, en við létum kannski ekki líða nægilega langan tíma á milli þess sem við dýfðum garnhlutunum ofan í litinn. Það er þó eilítið meiri munur en myndirnar sýna.

5 comments:

  1. Vá hvað þetta er flott :) og ræðum ekki metnaðinn :)

    Kv, Ásdís Björg

    ReplyDelete
  2. Vá, þetta eru frábærar upplýsingar og takk kærlega fyrir að deila þessu með okkur! Þetta langar mig að prófa. :)
    Tvær spurningar: virkar að lita allar tegundir garns eða er bara hægt að lita bómullargarn og ullargarn?

    Bestu kveðjur, Nína Margrét Perry :)

    ReplyDelete
  3. tja, það er spurning með svona náttúrulitun, ég hreinlega veit það ekki! Ég held að málið sé bara að prófa mismunandi garntegundir og athuga hvað gerist :)

    Bestu kveðjur og góða skemmtun!
    Erla

    ReplyDelete
  4. Þetta er alveg geðveikt!
    En ein spurning, hvernig haldast svona litir viti þið það, og lita þeir með sér, ef maður til dæmis væri að prjóna aðra liti með.
    Nú er ég alveg sjúk í þetta :)

    ReplyDelete
  5. Við skoluðum litina alveg úr þar til enginn litur kom meira í skolvatnið svo ég býst við að þeir haldist vel - en það á tíminn eftir að leiða í ljós... :) Bara þvo með köldu vatni.
    Erla

    ReplyDelete