Wednesday, November 4, 2009

Prjónaperlur í Mogganum í gær 3. nóvember

Við vorum á baksíðu Moggans í gær, þessi mynd og grein :)


PRJÓNAÆÐI meðal Íslendinga hefur sjaldan verið meira en um þessar mundir. Frænkurnar Erla Sigurlaug Sigurðardóttir og Halldóra Skarphéðinsdóttir fóru ekki varhluta af því og hófu í sumar söfnun uppskrifta hjá prjónurum úr grasrótinni. Afraksturinn má finna í bók þeirra Prjónaperlur - prjónað frá grasrótinni sem kemur út í lok mánaðar.

Í kjölfar þess að Erla missti vinnu sína sem kennari í sumar sótti hún Halldóru frænku sína heim til Stokkhólms í húsmæðraorlof, en það gerir hún reglulega. Halldóra sem er mikil prjónakona og annar höfunda prjónabókarinnar Prjóniprjón tók Erlu sem áður í handavinnukennslu. Vaknaði þá hugmyndin að grasrótaprjónabókinni.

„Mannfræðileg prjónabók“

"Þar sem svo mikil gróska er í prjóni á Íslandi vorum við forvitnar að vita hvað fólk væri að prjóna. Við höfðum samband við prjónara sem við vissum að færu ekki eftir hefðbundnum uppskriftum og prjónuðu og hekluðu frekar eftir eigin höfði" segir Erla og bætir við að söfnunin hafi gengið framar vonum. Í bókinni má finna um fimmtíu prjónauppskriftir eftir átján prjónara, hinar eiginlegu prjónaperlur úr grasrótinni, auk Erlu og Halldóru. Perlurnar eru hvaðanæva af landinu. „Við köllum bókina stundum „mannfræðilega prjónabók“ þar sem auk uppskriftanna fylgir léttur og húmorískur texti um hvern prjónara.“

Uppskriftirnar voru sérstaklega valdar af Erlu og Halldóru, sem létu ekki fjarlægðina stöðva samstarfið. Ekki er nema rúmt ár síðan Erla hóf að fikta af alvöru við prjónið. Halldóru má hins vegar flokka sem þungavigtaprjónara. Farin var sú leið að velja uppskriftir sem allir gætu prjónað. "Uppskriftirnar eru mjög fjölbreyttar og henta bæði byrjendum sem þaulvönum og er hver uppskrift einstök prjónaperla. Við lögðum upp með að hafa uppskriftirnar á mannamáli og það fór engin uppskrift í bókina sem ég skildi ekki sem byrjandi“.

Erla sem á von á sínu öðru barni eftir fáeinar vikur segir fjölda af uppskriftum hafa safnast til viðbótar. Hún á því allt eins von á að fleiri prjónaperlur líti dagsins ljós.

Hnotskurn
»Erla er mannfræðingur og Halldóra doktor í líffræði.
»Þær söfnuðu sjálfar uppskriftum, skrifuðu textann, tóku ljósmyndir og
settu bókina upp.


1 comment: