Wednesday, March 10, 2010

Perlurnar flytja sig um set....

Við perlurnar erum búnar að flytja okkur yfir á Miðjuna, komið og kíkið á okkur í nýjum og björtum híbýlum:

http://prjonaperlur.midjan.is/


Ykkar ætíð prjónandi,

Halldóra og Erla


Friday, March 5, 2010

Stieg Larsson, Arnaldur Indriðason, Lisa Marklund.... og við Perlurnar !

Jæja, bara að láta ykkur vita að við hérna félagarnir Stieg, Arnaldur og Lisa erum enn og aftur vinsælust á Íslandi.... :-)

Prjónaperlurnar eru í 10. sæti á metsölulista Félags íslenskra bókaútgefenda á tímabilinu jan-feb.
Vúhúúú!

Uppsafnaður metsölulisti tímabilið 01.01.10 - 28.02.10

1. Loftkastalinn sem hrundi - Stieg Larsson
2. Svörtuloft - Arnaldur Indriðason
3. Stúlkan sem lék sér að eldinum - Stieg Larsson
4. Póstkortamorðin - Liza Marklund/James Patterson
5. Almanak Háskóla Íslands 2010 - Háskóli Íslands
6. Matur og drykkur - Helga Sigurðardóttir
7. Þegar kóngur kom - Helgi Ingólfsson
8. Skemmtilegu Smábarnabækurnar - Ýmsir
9. Bankster - Guðmundur J. Óskarsson
10. Prjónaperlur - Halldóra Skarphéðinsdóttir og Erla S. Sigurðardóttir.

Perlurnar rokka feitt.... :-)

.

Thursday, March 4, 2010

Unaður



Jæja nú erum við Erla báðar búnar að kaupa okkur Japönsku bókina 1000 knitting patterns. Á netinu, hjá Needleart bookshop. Svíndýr, og með svínslegum tollgjöldum (til Íslands) - en ó svo yndisleg.....! Í alvöru talað - ÞÚSUND prjónamunstur....!! af öllum gerðum og sortum. Trilljón mismunandi kaðlar, grilljón mismunandi útprjón eða gataprjón, og bara Zilljón alls konar munstur....
Unaður.

Okkur klæjar í puttana að byrja á alls konar verkefnum, Erla er byrjuð á sjali með e.k. "Daisy stitch", og ég er byrjuð á trefli með útprjóni... :-)

Sjáiði t.d. þessa flottu og vorlegu trefla (myndin er frá Interweave store), það er "bara" að velja girnilegt garn og fallegt gatamunstur - eitt eða blanda saman fleirum - og hanna þinn eigin trefil.
Ef þú átt ekki svona (svíndýra og sjúklega flotta) munsturbók má jú líka finna fín munstur í svona trefla t.d. á Ravelry. Velja "pattern", skrifa "lace pattern" sem leitarorð, klikka svo í "free" undir availability til að bara fá fram þær uppskriftir sem eru ókeypis.



.

Saturday, February 27, 2010

Heklaðir pottaleppar



Það vildi svo skemmtilega til að það var svona second hand markaður í kjallaranum á garnbúðinni Trassel í Täby, norður af Stokkhólmi sem ég átti leið í (aldrei þessu vant - eða þannig...). Þar fann ég þessa hrikalega krúttlegu hekluðu pottaleppa á 10 kr. (sænskar) stykkið, og gat ekki á mér setið og keypti nokkra! Tvo sendi ég til Erlu, og þrír þeirra prýða nú í eldhúsvegginn hjá mér og ylja mér um hjartaræturnar - einsog krúttlegu hekli einu er lagið. (Ætli Frey (Manninum) finnist þeir eins smart og mér....? he he....).

Nú klæjar mig eiginlega í fingurna að hekla svona sæta pottaleppa, skemmtileg tilviljun að það er einmitt nokkrar uppskriftir af pottaleppum í nýjasta Drops blaðinu, númer 120, t.d. þessir. Ég myndi reyndar hafa mína tvöfalda - hekla eitthvað á bakhliðina.....

:-)



Thursday, February 25, 2010

Íslenska Ólympíuleikahúfan


Jæja, þá er Svíaríki orðið heltekið af hekl-æði. Húfu hekl-æði. Ólympíuhúfu hekl-æði.

Eftir því sem sænsku Ólympíufararnir vinna fleiri verðlaun á Ólympíuleikunum í Vancouver magnast æðið og nú er svo komið að blátt og gult garn (af rétta merkinu: Eskimo frá Drops) fæst hvergi, og heklunál númer 8 er uppseld í landinu - "Slutsåld i hela riket!". Blöðin segja frá sveittum garnbúðareigendum sem hafa ekki við að svara í símann: "Nei, því miður, blátt og gult garn kemur ekki aftur fyrr en í viku 10...., og nei, við eigum enga heklunál númer 8 til því miður".

Sérstakur fatnaður eða Collection var hannað á sænsku Ólympíufarana, alls 60 misunandi flíkur, en engin þeirra hefur fengið eins mikla athygli og heklaða húfan í sænsku fánalitunum, eða "OS mössan". Vissar flíkur eiga að notast á verðlaunapalli, þar á meðal er heklaða Ólympíuhúfan, þannig að hún hefur birst á ansi mörgum myndum í blöðum og sjónvarpi undanfarið hér í Svíþjóð.

Við hérna Íslendingarnir á Kantarellvägen í Vallentuna gátum ekki horft uppá þetta aðgerðalaus og grófum því fram plötulopann í réttu litunum (þrefaldan og heklunál nr.10). Gátum ekki látið hverfið verða algjörlega blá-gult á hausnum án þess að hreyfa legg né lið.

Nú vill svo til að blessaður plötulopinn er svolítið spes, þannig að mér finnst hann ekki koma alveg nógu vel út í þessari húfu - hún getur t.d. ekki "lekið" rétt niður ofan á kollinum, og maður virðist vera soldið svona einsog biðukolla á hausnum með hana frekar en frækinn Ólympíuverðlaunahafi - sýnist mér eftir að hafa mátað hana, þannig að þetta heklerí hefur verið sett á hold.... :-) Erlu fannst merkilegast að ég skyldi eiga plötulopa í réttu litunum bara si svona inní skáp hér úti í Sverige - en ég er jú með garnlager heima hjá mér (manninum til þó nokkurs ama) sem hver meðal garnbúð væri stolt af.... :-)

Uppskriftin er mjög einföld. Garnið Eskimo frá Drops er notað í húfuna (en einnig má nota fíngerðara garn tvöfalt), og heklunál nr. 8. Fyrst er bara hekluð flöt plata ofaná höfðinu þar til næg vídd næst (20 cm), þá er heklað í hverja lykkju án útaukninga þar til húfan er orðin nokkuð síð (á að hanga soldið á hnakkanum). Hér að neðan er uppskriftin á sænsku einsog hún hefur birst í mörgum dagblöðum og á mörgum bloggum. Þýðing á heklhugtökunum er að finna hjá Garnstudio. Í þessari uppskrift er heklað með fastalykkjum, en þeir sem til þekkja segja að fyrirmyndin sé hekluð með hálfstuðlum. Það er auðvelt að breyta því; bara hekla með hálfstuðlum, eftir uppskriftinni, þar til stykkið mælist 20 cm (ca. 40 lykkjur alls), hekla þá án útaukninga þar til rétt sídd fæst.

Góða skemmtun með hekleríð,
Yours truly i Sverige - Halldóra.









.

Monday, February 22, 2010

Baby Surprise Jacket

Krummi dálítið hissa í Baby Surprise Jacket - mjög viðeigandi ;)

Jæja jæja lesendur góðir!

Þá er komið að því að státa sig af prjónadásemdinni sem ég kláraði í síðustu viku, svokölluðum Baby Surprise Jacket, en það er meistarastykki nokkuð hannað af prjónagúrúinu Elizabeth Zimmermann (f. 1910-d. 1999). Elizabeth hannaði þessa peysu árið 1968 og ekki annað hægt að segja en að hún sé algjört prjónahönnunarundur. Maður prjónar peysuna fram og til baka (garðaprjón) og ef maður tekur úr og eykur í á réttum stöðum verður allt í einu til þessi líka svaka fína garðaprjónspeysa! Peysan er saumuð saman á öxlunum.

Ég notaði fína heimalitaða Kambgarnið mitt í þessa peysu (upplýsingar um garnlitun er hér aðeins neðar á blogginu). Ég prjónaði hana á prjóna nr. 3,5 og það fóru rétt tæpar 2 dokkur af Kambgarni í hana. Hún passar á litla snúðinn minn sem nú er rétt rúmlega 2 mánaða. Hún mun svo vaxa með honum upp í ca. 6 mánaða myndi ég halda en garðaprjónið teygist vel og peysan er rúm. Ég á svo pottþétt eftir að gera aðra stærri peysu þegar hann hættir að passa í þessa, þá á þykkara garn og stærri prjóna. Ermarnar á þessari peysu er nokkuð stuttar, en einfalt er að taka upp lykkjur og prjóna framan á þær.

Uppskriftina að BSJ má kaupa í Nálinni á Laugavegi og eins er hana að finna í bókum Zimmermann: The Opinionated Knitter og Knitting Workshop.



BSJ er prjónuð í einu stykki fram og til baka


Gestaþraut: Hvernig setur maður þetta saman til að úr verði peysa?? Ég þurfti að fletta upp vídjói á Youtube til að finna út úr því haha!


Peysan tilbúin, nema vantar tölurnar á...

Krummi sæti í sætu peysunni

Tuesday, February 16, 2010

Prjónakennsla

Því miður var ekki pláss fyrir prjónakennslu í Prjónaperlu-bókinni (við tímdum ekki plássinu undir það!), en á netinu er fjöldi góðra kennslumyndbanda. Til dæmis er Drops eða Garnstudio.com með mörg góð myndbönd, sem sýna bæði undirstöðuatriði og flóknara prjón.

Hér fyrir neðan er linkur á nokkur myndbönd þeirra í undirstöðuatriðunum. Smelltu á play til að skoða myndböndin, og svo "share" efst í horni myndbandsins, og síðan "visit URL" til að komast á síðuna þeirra til að skoða fleiri myndbönd.


Fitja upp.

Cast on from DROPS Design on Vimeo.




Garðaprjón (slétt prjón).
(prjónað fram og til baka, slétt báðu megin)

Garter stitch from DROPS Design on Vimeo.




Prjónað brugðið.

Purl 3 from DROPS Design on Vimeo.





Fella af


Bind off right side from DROPS Design on Vimeo.




Hér er pottþétt aðferð til að fella laust af, sem Halla lopi kenndi okkur í saumó Norður Stokkhólms :-) :


Monday, February 15, 2010

Prjónaráð

Á garnstudio.com eru mörg prjónamyndbönd. Hér koma nokkur sem sýna góð prjónaráð.

Er dokkan búin? Þá er bara að spýta í lófana og "þæfa" nýjan enda við þann gamla. Engir þráðar að ganga frá.... :-) (virkar með flest ullarband):

Add a new ball of yarn from DROPS Design on Vimeo.




Hér er sýnt hvernig prjónamerki eru notuð. Í þessu dæmi er aukið út um 1 lykkju sitt hvoru megin við prjónamerkin.

Stitch markers from DROPS Design on Vimeo.




Hér kemur lausn á algengu vandamáli:
Misstirðu niður lykkju? Náðu í heklunál og "heklaðu" hana upp!:

Dropped stitch from DROPS Design on Vimeo.




Russian join - góð aðferð til að skeyta saman 2 þráðum. Gott er að nota ef erfitt er að ganga frá endunum, einsog t.d. í prjóni með fíngert garn einsog einband. Þessa aðferð er t.d. upplagt að nota í Möbíusnum þegar maður skiptir um lit.

Russian join from DROPS Design on Vimeo.

Saturday, February 6, 2010

Perlurnar í 8. sæti í janúar!



Við segjum ykkur stoltar frá því að Prjónaperlur eru í 8. sæti á metsölulista Félags íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) í janúarmánuði! Jibbí jei, gaman gaman! Við vissum jú alltaf að þetta væri skemmtileg prjónabók en að komast á metsölulista er þvílíkur heiður. Takk kærlega allir prjónarar þarna úti. Við vonum að þið séuð að njóta bókarinnar og hafið gaman af því að prjóna upp úr henni. Stykkin í bókinni eru alls konar, flókin og einföld, og ættu allir að finna sér eitthvað við hæfi. Grasrótin er svo sannarlega að gera góða hluti í prjóni - það er engin spurning :)

Kíkið endilega á Prjónaperluklúbbin á Facebook og skoðið þær myndir sem hafa verið settar inn af þeim stykkjum sem fólk hefur prjónað upp úr bókinni. Við viljum endilega fá að sjá þetta er allt svo flott! Sumir prjóna beint upp úr bókinni en aðrir hafa gaman af því að breyta og fabúlera með uppskriftirnar. Útkoman verður alltaf skemmtileg!

Hér má sjá nokkrar myndir frá gerð bókarinnar. Allt ferli í þeirri vinnu var svo skemmtilegt. Hér má sjá Elísabetu Stefánsdóttur vinkonu okkar og áhugaljósmyndara með meiru munda vélina með stæl. Útkoman var æðisleg!




Takk aftur!
Prjónaást,
Erla og Halldóra

Thursday, January 28, 2010

Meiri (græn) garnlitun!

Dylon litirnir úr Þorsteini Bergmann

Jæja, þá ætla ég að segja ykkur frá ævintýralegu garnlituninni sem ég lagði í í gærkvöldi. Ég litaði kambgarn og einband með litum sem heita DYLON og ég keypti í verslun Þorsteins Bergmann á Skólavörðustígnum. Litirnir eru ódýrir, hvert box 250 kall minnir mig og samkvæmt leiðbeiningunum dugar það til að lita 250 grömm af efni/garni. Ég gat ekki staðist þetta og keypti 6 liti. Notaði einn í gærkvöldi: Ólívugrænan.

Maður setur einfaldlega vatn í pott, ég setti hér 2 lítra, leysir litaduftið upp í öðrum hálfum lítra og hellir út í. Magnið af vatninu fer jú aðeins eftir því hversu mikið garn á að lita. Ég vildi lita tvær dokkur af kambgarni: 100 grömm, og notaði því aðeins helminginn af litnum/duftinu í dollunni. Ég hitaði vatnið upp að suðu á hellunni. Maður á að setja eina matskeið af salti út í.... EN ég gleymdi því!

Ég hafði undið kambgarnið upp í svona lengjur og dýfði hluta af því ofan í pottinn (slökkti undir þegar suðan kom upp). Ég vildi hafa garnið mismikið litað og því fóru hlutar af garninu ofan í pottinn með um 15 mínútna millibili. Því lengur sem garnið er í litnum því sterkari og meiri litur fæst. Samtals litaði ég garnið í um 30 - 40 mínútur. Eftir það fannst mér nægur litur eftir í pottinum svo ég dýfði hreinlega hluta af heilli dokku af einbandi ofan í pottinn, nennti ekki að vinda hana upp, ákvað að athuga hvort þetta gengi svona líka. Og viti menn, þetta tókst líka, einbandið litaðist nokkuð vel og inni í dokkunni líka. Gott mál.

Í litaprósessnum hafði ég furðað mig á því hvað þessi "ólívugræni" litur væri ekki svo mikið ólívugrænn heldur meira venjulega grænn eða jafnvel blágrænn. Mjög fínn litur og allt það en ekki alveg eins og stóð á litadollunni... Svo þegar ég uppgötvaði (mjög seint, alveg í lokin) að ég hafði gleymt að setja saltið út í pottinn þá ákvað ég að setja saltið út í og athuga hvað myndi gerast. Og viti menn, liturinn varð ólívugrænn :) Jamm, liturinn sem sagt breyttist úr þessum dökkgræna í ólívugrænan svo saltið hefur greinilega áhrif á að liturinn komi rétt út. Hins vegar fannst mér liturinn án salts festast mjög vel í garninu svo það er ekki eins og saltið eða skortur á salti hafi haft mikil áhrif á festu.

Hér að neðan má sjá afraksturinn.
Þegar liturinn var orðinn ólívugrænn lék ég mér aðeins að því að dýfa hluta af einbandinu og kambgarninu ofan í það til að fá smá þannig keim líka á garnið.
Útkoman er ævintýralega GRÆN og skemmtileg :)

Næst er það svo kaffibrúnn, bordaux, jungle green, appelsínugulur og og og... :)
Og auðvitað prjóna Baby Surprise Jacket hennar Elizabeth Zimmermann úr græna kambgarninu á litla snúðinn minn, sjá mynd af peysunni hér á Ravelry (eru ekki annars örugglega allir búnir að skrá sig þar!?)

Grænar kveðjur,
Erla

p.s. mæli með að þið notið hanska við litunina, ég er með aðeins of græna fingur í dag!

kambgarnið í pottinum með litnum

búið að lita kambgarnið. Fyrst skildi ég eftir nokkra hvíta búta en dýfði þeim svo aftur ofan í síðar þegar liturinn var orðinn meira ólívugrænn. Vildi hafa þá ljósljósgræna í stað hvíta

einbandsdokkunum skellt út í í heilu lagi!

kambgarnið litað og tilbúið - og allt öðruvísi en ég bjóst við! Það er líka það skemmtilega við litunina

jömmí!

Hér má sjá einbandið - dokkan hér til hægri er lituð í litnum án salts (gleymdi því fyrst) en sú síðari í sama lit með salti. Hitaði bara litinn upp aftur og hafði dokkuna ofan í á meðan


og hér má sjá fyrri einbandsdokkuna sem var litun án salts, dökkgræn, en svo dýfði ég öðrum endanum ofan í ólívugræna litinn og þá varð þetta svona ævintýralega skemmtilegur alls konar grænn litur :)

eins og sjá má fer grænt þessum sæta snúði svo vel - hann mun fá BSJ á næstunni úr kambgarninu :)

Monday, January 25, 2010

Perlurnar á metsölulsta!

Vá...Prjónaperlurnar eru á top tíu lista yfir mest seldur bækurnar það sem af er janúar :) Ekkert smá gaman og við erum svo stoltar af okkur og perlunum okkar! Og sérstaklega ánægðar með ykkur sem eruð að prjóna upp úr bókinni. Þetta ævintýri hefur gengið svakalega vel og það gleður okkar prjónahjörtu að sjá bókina á svona fínum sölulista :)

Metsölulistinn byggist á upplýsingum frá eftirtöldum verslunum: Bókabúð Máls og menningar, Eskju, Hamraborg, Iðu, Bókabúðin við höfnina (Stykkishólmi), Bóksölu stúdenta, Bónus, Hagkaupum, Kaupási, N1, Office 1, Pennanum - Eymundsson og Samkaupum. Rannsóknarsetur
verslunarinnar tekur listann saman.

Elskum ykkur,
E+H

Friday, January 22, 2010

17 km langur trefill fyrir norðan!

Fríða Gylfadóttir frá Siglufirði vakti athygli okkar á mjög skemmtilegu prjónaverkefni sem er í gangi fyrir norðan. En það er að prjóna trefil sem mun ná í gegnum Héðinsfjarðargöngin sem munu tengja Siglufjörð og Ólafsfjörð saman - alls 17 km langur trefill !!!

Á heimasíðu Fjallabyggðar má lesa þetta um verkefnið:
Fjallabyggð keppist fólk nú við að prjóna. Karlar, konur og börn, innfæddir, aðfluttir og fráfluttir, á öllum aldri hafa tekið upp prjónana og keppast nú við að prjóna 17 km. langan trefil. Ætlunin er að nýta trefillinn til að tengja saman byggðarkjarnana alveg frá miðbæ Siglufjarðar í gegnum Héðinsfjarðargöng inn í miðbæ Ólafsfjarðar við vígslu gangana í lok september nk. þegar göngin verða formlega opnuð.

Hugmyndina að þessu framtaki á Fríða Gylfadóttir listamaður á Siglufirði og hefur hún staðið í ströngu síðustu daga við að koma verkefninu af stað.
Eftir að byggðakjarnarnir hafa verið tengdir saman er ætlunin að búta trefillinn niður í minni trefla, þæfa þá, sauma í þá merki Fjallabyggðar og selja til styrktar góðgerðarmálum.

Búið er að setja upp prjóna á helstu samkomustöðum sveitarfélagsins sem hægt verði að grípa í þegar tækifæri gefst. Það má því búast við að prjónað verði á biðstofum heilsugæslunnar, á hárgreiðslustofunum, öllum verslunum, í bakaríinu, í apótekinu, í frímínútum hjá grunnskólunum, á bifreiðaverkstæðum, og kaffistofum út allt sveitarfélagið.

Fríða hvetur allt prjónafólk á Siglufirði, Ólafsfirði og um land allt til að sameinast og senda inn búta. Litir, gerð garns eða prjónamunstur skiptir ekki máli, bútarnir þurfa bara að vera 20 cm. breiðir. Vinnustofa Fríðu á Siglufirði verður opin alla mánudaga frá kl. 15-18 í tengslum við verkefnið svo einnig verður hægt að mæta þangað.

Áhugasamir geta haft samband við listamanninn í síma 896-8686, eða sent línu á frida@frida.is. Auk þess er hægt að senda búta á skrifstofu sveitarfélagsins Gránugötu 24 580 Siglufirði eða Ólafsveg 4 625 Ólafsfirði."

Fylgist með framvindu mála hér: www.frida.is !



Kortið hér að neðan er frá heimasíðu vegagerðarinnar og sýnir Héðinsfjarðargöng, og myndin er af Siglufirði (frá vef Jónasar Gunnlaugssonar).



Sunday, January 17, 2010

Þæfðir vettlingar

Vettlingarnir eru prjónaðir RISAstórir svo þeir passi eftir þæfingu

Þykkir, hlýir, flottir... ;)

Svona þæfðir vettlingar eru eiginlega algjört "must have" í íslenskum (og sænskum!) vetri. Þeir eru svo þéttir og hlýir, það fer ekkert í gegnum þá!

Bóndinn sá einhverja svakalega fína vettlinga í útivistarbúð hér í bæ sem hann langaði í. Þetta voru þæfðir ullarvettlingar, eitthvað erlent merki - og vissulega rándýrir. Svo hann lagði inn pöntun hjá prjónaranum sínum (Erlu!).

Ég hafði einu sinni áður prófað að þæfa lopavettlinga en sú tilraun mistókst allhrapalega! Vettlingarnir, sem áttu að vera afmælisgjöf til vinkonu minnar, svo að segja hurfu í þvottavélinni! Þeir pössuðu ekki einu sinni á 5 ára dóttur mína! Þeir urðu pínulitlir og harðir eins og steinn... Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég opnaði þvottavélina! En alla vega, ég vissi að einn daginn yrði ég að leggja aftur í vettlingaþæfingu, það myndi ekki þýða að flýja það forever... ;) Ég vissi sem var, að ég hafði sett umrædda vettlinga á of langt þvottaprógramm sem gerði það að verkum að þeir þæfðust alltof mikið. Þá er það víst staðreynd (frétti það eftir á) að hærusvartur litur þæfist víst mest af öllum, og vettlingarnir voru jú hærusvartir að lit.

Ég notaði uppskriftina hennar Halldóru af "Venjulegum vettlingum" úr Prjónaperlum nema stækkaði prjónana upp í nr. 6 og 7. Stroffið er prjónað á 6 og vettlingurinn sjálfur er prjónaður á 7. Ég notaði þrefaldan plötulopa því Viggi vildi fá vettlingana þykka. Svo fór ég í lopaafgangana mína og setti saman þetta fína kombó af ljósbláum, dökkbrúnum, rauðbrúnum og hvítum. Ég prjónaði fyrst einn vettling og setti í þvottavélina til að sjá hvernig þæfingin myndi heppnast. Ég stillti vélina á 30° og setti á stutt bómullarprógramm. Skellti einu litlu handklæði með í vélina. Spennan var í hámarki ... Vettlingurinn þæfðist vel í fyrstu umferð svo ég lagði í að prjóna hinn vettlinginn. Ég gerði þumalinn á þeim vettlingi úr öðrum lit og ruglaði röðinni á litunum í oddamunstrinu bara í gamni. Skellti honum svo í þvottavélina á sama prógramm. Vettlingurinn þæfðist vel nema þumallinn ekki! Mjög spes! Þumallinn var enn risastór! Hann var rauðbrúnn að lit og þá sá ég að sá litur í lopanum var ekki að þæfast eins vel og hinir. Litirnir þæfast sem sagt aðeins mismunandi... og sá rauðbrúni voðalega lítið. Ég tók því áhættuna og smellti vettlingunum báðum aftur í vélina, þeir máttu líka alveg við því, þeir voru enn svona í það stærsta. Pössuðu á Vigga en mættu alveg vera aðeins minni, svo við tókum sameiginlega ákvörðun um að taka þá svakalegu áhættu að skella vettlingunum aðra ferð í þvottavélina.

Þegar vettlingarnir komu úr þvottavélarferð nr. 2 voru þeir aðeins litlir en við teygðum þá bara vel til og þá smellpössuðu þeir á kallinn. Rauðbrúni þumallinn var hins vegar enn dálítið stór - en allt í lagi samt. Það er sem sagt hægt að teygja lopann mjög vel og móta hann eftir þæfingu, á meðan vettlingarnir eru enn blautir.

Niðurstaða:
Æðislegir skotheldir vetrarvettlingar. Og hver segir að vettlingar þurfi endilega að vera eins að lit báðir tveir?? ;)

Samantekt:
Uppskrift: Venjulegir vettlingar úr Prjónaperlum

Prjónar: Nr. 6 í stroffið, nr. 7 í vettlinginn sjálfan

Stærð: XL eftir eina ferð í þvottavélina en L eftir tvær þvottavélaferðir

Þvottur: 30° á stutt bómullarprógramm. Setja lítið handklæði með. Ef þeir eru enn of stórir eða þæfast illa eftir fyrsta þvott þá er um að gera að skella þeim bara aðra ferð. Takið strax úr vélinni eftir þvott til að hægt sé að móta þá og teygja ef þarf
Litir: Dökkbrúnn og ljósblár þæfast vel en rauðbrúnn illa

Wednesday, January 13, 2010

Að lita garn

Karrý og Smartgarn

Hæ hó kæru prjónavinir!
Nýfæddur sonur minn fékk svo fallega lambhúshettu í jólagjöf frá bróður mínum og mágkonu. Hún var prjónuð í prjónavél móður mágkonunnar og það úr handlituðu garni. Garnið var litað með alls kyns berjum og var svo girnilegt og fallegt. Mágkonan, sem er byrjandi í prjóni, sagði ferlið einfalt svo ég mátti til með að prófa!

Ég fékk mömmu í lið með mér og saman prófuðum við í dag ýmsar kúnstir í garnlitun. Við ákváðum að prófa aðeins náttúruleg hráefni til að byrja með, þ.e. enga sérstaka keypta liti. Hráefnin sem okkur datt í hug að nota til að fá lit voru karrý, te, rauðbeðusafi, spínat og bláber. Garnið sem við prófuðum að lita var: Einband, Smart, bómullarheklugarn (sláturgarn) og kambgarn. Hér er litunarferlinu lýst ásamt því sem þið fáið að sjá árangurinn... sem kom svolítið á óvart!

Efni og tæki: Te, bláber, karrý, rauðbeðusafi (spínatið varð svo ógirnilegt í pottinum að við hættum við það!), borðedik, salt, hanskar, pottur, sleif, sigti, vatn, eldavél...og hvítt GARN ;)

Ferlið:
1.
Vindið garnið upp í lengjur.
2. Setjið hráefnið sem á að nota til litunar í pott ásamt vatni. Byrjið á því að nota minna vatn en meira og bætið frekar vatni út í finnist ykkur liturinn vera of sterkur. Styrkur litarins fer jú mikið eftir magni vatnins.
3. Setjið ca. 1 msk. af salti út í pottinn og dasssss af ediki.
4. Hitið upp að suðu. Látið sjóða/malla þar til ykkur finnst liturinn á vatninu í pottinum orðið ykkur að skapi! Sigtið þá hráefnið í pottinum úr vatninu (berin frá vatninu, tepokana frá vatninu) og notið aðeins vökvann til litunar.
5. Setjið garnið ofan í pottinn. Við slökktum ekki undir pottinum heldur lækkuðum bara hitann. Setjið aðeins hluta af garninu ofan í strax í upphafi ef þið viljið fá mislitt garn, þ.e. ekki allt eins á litinn heldur part af garninu dökkt og annan part ljósari. Því lengur sem garnið er ofan í, því dekkri litur kemur á það.
6. Tíminn sem það tekur að lita garnið er afar misjafn eftir litarefni. Karrýið litar mjög fljótt fannst okkur en bláberin og teið var mun lengur. Þetta getur þurft að vera í pottinum í 15 mínútur og upp í þess vegna klukkutíma... Fer eftir litarefni og garntegund (og þolinmæði haha!)
7. Skolið garnið upp úr köldu vatni og leggið til þerris.

Niðurstaðan okkar í þetta fyrsta sinn sem við litum garn á þennan hátt er eftirfarandi:

a. Það er fyrst og fremst ótrúlega skemmtilegt að lita sitt eigið garn - svo persónulegt og spennandi hver útkoman verður... :)
b. Bláber: Einbandið litaðist mjög illa af bláberjunum, og þó var það heillengi ofan í pottinum. Liturinn skolaðist nánast allur úr og einbandið endaði á því að vera föl-fjólubleikt. Hins vegar tókum við eftir því að spottarnir sem við bundum utan um einbandið (til að halda því saman til að það flæktist ekki) lituðust svakalega vel og fengu rosa flottan djúpfjólubláan lit, mjög girnó! Þessir spottar voru úr einhverju þýsku ullargarni sem við gripum til að binda... = Einbandið litaðist ekki en þýska baby ullararnið litaðist mjög flott. Spurning hvað Kambgarnið eða léttlopinn gerir... prófum það næst (var ekki til nægur litur í þetta sinn til að prófa það). Ég veit líka að Lanette litast mjög fallega og vel af berjum (lambhúshetta sonarins er úr Lanette). Heklugarnið mitt (bómullarband) varð pastelfjólublátt... sem reyndar hentar mjög vel til Frjálsmenagerðar svo það er bara gott mál :)
c. Karrý: Svínvirkar á einbandið! Og ábyggilega allt annað garn... liturinn er svo sterkur.
d. Te: Við notuðum bæði piparmyntute og svart te saman, niðurstaðan varð svona gulllitað/ljósbronsað Kambgarn, í raun mjög flott, en ekki sterkur litur. Hefði verið til í að fá eilítið sterkari brúnan. En mjög flott samt :) Heklugarnið varð ljós beige...
e. Rauðbeðusafi: Smartgarnið varð skemmtilega bleikt og rauðbleikt, heklugarnið (bómullar) varð ljósbleikt.

Hér má sjá myndir úr lituninni - reynið svo endilega sjálf og látið ímyndunaraflið ráða för með matvörur og liti ;) Þá er auðvitað líka hægt að kaupa sérstaka liti til að lita svona garn, t.d. hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustígnum í miðbæ Reykjavíkur. Við ætlum að prófa þá liti mjög fljótlega líka og rapportera!

Góða skemmtun...
Erla



Hráefnið

Móðir og barn ;) - undirbúa garnið fyrir litun

Kambgarn, einband og Smart

Búið að sjóða bláberin (í vatni og með ediki og salti) og fá fínan fjólubláan lit á vatnið



Einbandið mallar í litnum - fyrst er hluti settur ofan í, hann látinn malla í dágóða stund eða þar til garnið er orðið nokkðu vel litað, þá er næsti hluti settur ofan í o.s.frv.

Jömmí!! - já virkar girnó hér... en liturinn á einbandinu varð svo voðalega daufur. Virkar betur á aðrar týpur af ullargarni

Hér er einbandið litað með bláberjum, takið eftir því hvað spottarnir sem halda garninu saman eru fallega fjólubláir á meðan einbandið litaðist frekar dauflega. Samt alveg flott!

Mamma við pottana

Kambgarnið í teinu

Hér er heklugarnið - frá vinstri til hægri er það te, bláber og rauðbeðusafi

Gulllitað kamb

Smartgarn - karrý og rauðbeðusafi
Eins og sést á myndunum er ekki ýkja mikill litarmunur á garninu hjá okkur, en við létum kannski ekki líða nægilega langan tíma á milli þess sem við dýfðum garnhlutunum ofan í litinn. Það er þó eilítið meiri munur en myndirnar sýna.

Wednesday, January 6, 2010

Sjónvarpssokkarnir fínu...


Hér fer reynslusaga sjónvarpssokkaprjónarans mín:

Ég prjónaði nokkra sjónvarpssokka fyrir Prjónaperlur, pikkaði uppskriftina bara upp eftir einum af þeim gömlu góðu sjónvarpssokkum sem amma Silla prjónaði á mig forðum daga. Nú í kuldakastinu undanfarið hef ég varla farið úr einu parinu... þeir eru svo mjúkir og hlýir... - nema hvað, að eftir nokkra notkun á þeim voru þeir farnir að verða of víðir og óþægilega stórir. Mér fannst allt í einu eins og þeir væru of lausir í sér, prjónaðir á of stóra prjóna jafnvel. Svo í stað þess að gefa þá upp á bátinn ákvað ég að skella þeim hreinlega bara í þvottavélina og prófa að þæfa þá eilítið. Ég setti þá á venjulegt bómullarprógramm á 30°, ÁN forþvottar. Ég kveið nokkuð niðurstöðunni þar sem ég hafði stuttu áður þæft vettlinga sem áttu að passa á fullorðinn en komu úr þvottavélinni aaaalltof litlir, pössuðu ekki einu sinni á 5 ára dóttur mína..! En þá hafði ég sett á of langt þvottaprógram (með forþvotti) og þeir hurfu næstum því!

En ég vil sem sagt mæla með þessu, ef eða þegar sjónvarpssokkarnir ykkar eru orðnir of stórir, víðir eða ólögulegir eftir nokkra notkun þá má endilega skella þeim í þvottavélina, á stutt bómullarprógramm á 30 gráður. Ég klæddi mig í sokkana þegar þeir komu rakir úr vélinni, svona til að teygja þá eilítið til og sjá til þess að þeir pössuðu mér nú ennþá. Ég er með nokkuð stóran fót og nú passa þeir frábærlega, eru þéttir og hlýir, algjör draumur :)

Erla