Thursday, December 31, 2009

Í lok árs.....

Jæja, þá er þetta prjónaár liðið.
Mikið rosalega er þetta búið að vera skemmtilegt ár.... á alla kanta - og þá sérstaklega prjónakanta.... :-) Það var svo gaman að vinna í prjónabókinni - og svo frábært auðvitað þegar hún kom út! Salan hefur gengið vonum framar, bókin rennur út einsog heitar lummur.... :-) Hún hefur nú selst í fleiri eintökum á þessum mánuði síðan hún kom út heldur en fyrsta bók Halldóru (Prjóniprjón) allt árið !

Bókin hefur fengið skemmtilega umfjöllun í ýmsum fjölmiðlum, það hefur lent meira á Erlu því Halldóra er jú úti í Stokkhólmi, þannig að Prjónaperlan Erla ætti að vera orðin flestum kunn hér á landi. Í byrjun nóvember var viðtal við Erlu á baksíðu Morgunblaðins um bókina, það kom svakalega vel út, skemmtileg umfjöllum um prjónagróskuna og flott mynd :) Baksíða Moggans - geri aðrir betur ha?! ;) Hér má sjá pdf af Moggaviðtalinu. Fréttablaðið var með prjónaumfjöllun og viðtal í sömu viku og bókin kom út (sjá pdf af viðtalinu hér), ásamt því sem Erla kom í viðtali í Morgunútvarpi Bylgjunnar þá vikuna. Þar lofaði Heimir Karlsson henni að læra að fitja upp mjög fljótlega...! Í desemberblaði Hús & híbýli var innlit heim til Erlu og fjölskyldu og mjög skemmtilegt 6 síðna viðtal við Prjónaperluna Erlu þar sem hún ræðir um prjón og Prjónaperlur, hér er pdf af því. Í jólablaði Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í desember var sömuleiðis viðtal við Erlu og grein um bókina, enda Erla Hafnfirðingur og þó nokkrir prjónarar í bókinni sömuleiðis frá Hafnarfirði.


Svo var Sunnlenska fréttablaðið með grein um bókina í miðjum desember (Sjá hér fyrir neðan) ásamt því sem Fjarðarpósturinn og Bændablaðið hafa fjallað um bókina.
Allt að gerast....:-)
Gaman að því.


Jæja elskurnar. Við viljum þakka frábærar viðtökur og nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegs nýs prjónaárs. Veriði áfram dugleg að grípa í prjónana, það er svo notalegt.
Njótum prjónalífsins.... :-)



Ykkar,
Halldóra og Erla

Sunday, December 27, 2009

Litli Erlu-Prjónaperluson er fæddur!

Vera stóra systir með brósa


Fyrst fæddist bókin okkar og svo kom barnið, alveg eins og eftir planinu! Sonur Erlu Prjónaperlu fæddist 13. desember sl. og kom á hárréttum tíma. Bókin var komin út, búið að dreifa henni og þá ákvað þessi elska að láta sjá sig :) Fæðingin líkt og bókaútgáfan gekk mjög vel og hann er svo vær og yndislegur. Hér má sjá hann á leið heim af fæðingardeildinni í EINU flíkinni sem ég hef prjónað á hann hingað til... ég var jú upptekin við vinnu í bókinni svo prjónaskapurinn fékk að sitja eilítið á hakanum... en nú er ég nú búin að fitja upp á lopapeysu á guttan og stefni í að prjóna mína fyrstu sokka með hæl - auðvitað upp úr Prjónaperlum. Þetta er allt að koma! Það er svo vonandi bara að hann gefi mér tvær hendur lausar til að prjóna á sig... ;)

Tuesday, December 22, 2009

Prjónaperlan Vilborg



Hún Vilborg María er súperdúperPrjónaperla. Síprjónandi - ásamt því að vera með fullt hús af börnum og búskap með rollur og hross (og karl) - og vinnu sem leikskólastjóri (!). Manni dettur helst í hug að loftið þarna í sveitinni á Skarði (í Hreppum á Suðurlandi) þar sem hún býr hljóti að vera eitthvað extra orkuríkt, eða sólarhringarnir eitthvað extra langir, miðað við hversu miklu hún kemur í verk. Reyndar segir Vilborgu skýringuna á því vera þá að hún notar öll tækifæri sem gefast til að prjóna. Og er orðin mjög fær í að hræra í pottum, skipta á bleyjum, gefa brjóst og prjóna á sama tíma!! Svo er hún aldrei farþegi í bíl nema prjónandi - annað er prjónatímasóun á háu stigi.... :-)

Hún er sú prjónaperla sem á flest stykki í bókinni (fyrir utan okkur sjálfar, höfundana). Við bara gátum ekki gert upp á milli þeirra, okkur fannst það allt svo flott og langaði svo til að hafa allt með!

Hún er til dæmis höfundur litlu lopapeysunnar "Bokki", sem er úr einföldum plötulopa, og er því svo létt og þjál - en heit. Og svo yndislega einföld og skemmtileg. Munstrið í henni er að hluta til prjónað brugðið sem gefur mjög sérstakan stíl á flíkina.


Svo á hún líka kjólapeysuna "Hrafnaklukka", sem bæði má hafa sem peysu, eða ef hún er höfð síð, sem kjól. Hún er úr einföldum plötulopa og einbandi saman, frekar víð peysa með vítt hálsmál. Í munsturbekknum eru svo fallegir fjólubláir litir saman - einsog í blóminu hrafnaklukka. Munsturbekkurinn er prjónaður með plötulopa og einbandi saman eða tvöföldu einbandi - kemur mjög skemmtilega út.

Hér viljum við nota tækifærið og koma með ábendingu í sambandi við stroffið í Hrafnaklukku. Í henni er mjög flott stroff sem er prjónað svona: 1 slétt lykkja og 2 lykkjur perluprjón. Sem þýðir að lykkjufjöldinn sem fitjaður er upp þarf að ganga upp í töluna 3. Lykkjufjöldinn sem gefinn er upp hjá okkur í bókinni gerir það ekki....! Í stað þess að standa "Fitjið upp 119 (131) 143 lykkjur" ætti það því að vera: "Fitjið upp 120 (132) 144 lykkjur". Og sleppa þá að auka út um 1 lykkju þegar stroffi lýkur. Sömuleiðis í ermunum, þar á að standa: "Fitjið upp 42 (51) 60 lykkjur og prjónið stroff einsog í bolnum í 15 umferðir. Eftir stroffið er aukið út um 2 (1) 0 lykkjur: 44 (52) 60 lykkjur."




"Grámhildur góða" er ótrúlega falleg útprjónuð og hneppt peysa úr léttlopa. Hana þarf helst að skoða í eigin persónu til að munstrið og "upplifunin" af flíkinni skili sér að fullu.... :-) Útprjónið á berustykkinu er eitthvað svo látlaust en samt "elegant", og gerir flíkina svo sérstaka.


Vilborg á líka uppskriftina að litlu sokkunum "Sóley í túni" í bókinni. Þeir eru prjónaðir út grænum léttlopa og einbandi, með háu stroffi, heitir og voða góðir fyrir litla fætur. Svo er saumuð ein lítil sóley í þá - sem lífgar upp á allt í kring - alveg einsog þegar maður rekst á litla sóley í túni.
:-).

Svo er Vilborg með prjónablogg líka (!) sem hún laumar nokkrum línum og myndum á af og til þegar ró er komin í kotið seint á kvöldin, það er hér, kíkiði endilega á og skiljið eftir kveðju: www.lopinn.blogspot.com.

Monday, December 7, 2009

Jólakúl 2009



Hún Vilborg, ein af prjónaperlunum okkar er með svo skemmtilegt verkefni í gangi. Hún hvetur til þess að við prjónum jólakúlur ! Af öllum stærðum og gerðum. Á blogginu hennar er grunnuppskrift að jólakúlu, prófiði endilega sjálf! Og sendið svo myndir til Vilborgar.

Þetta er sérdeilis upplagt fyrir prjónara til að koma sér í jólastemmningu !
Eller hur...

Á facebook er líka Jólakúl hópur - skráið ykkur endilega með :-)

:-)

Friday, December 4, 2009

Perlurnar okkar...

Prjónaperlurnar okkar, sem eru með framlög í bókinni eru svo yndislegar.... allar sem ein. Okkur finnst við svo heppnar að hafa krækt í þær til að vera með í bókinni.

Þær eru svo sérstakar hver á sinn hátt – bæði í háttum og prjóni. Eru á öllum aldri, og alls staðar að frá landinu. Mjög gaman að sjá hvað þær nálgast prjónið á mismunandi hátt, hvað prjónasmekkurinn er mismunandi, og hvað það eru ólík verkefni sem helst verða fyrir valinu hjá hverri og einni. En allar eiga perlurnar það sameiginlegt að vera prjónarar af lífi og sál. Sumar þeirra hafa prjónað í yfir 70 ár (!) en aðrar bara í nokkra mánuði. Við ætlum að kynna nokkrar prjónaperlur hér á blogginu, en hér kemur fyrst upptalning á þeim öllum og stykkjunum þeirra, í stafrófsröð.


Prjónaperlurnar fínu:

Elísabet Matthíasdóttir, 62ja ára frá Siglufirði: Heklaðir ungbarnaskór, í bómullargarni.
Emelía Kristbjörnsdóttir, 83ja ára frá Skeiðum, Suðurlandi: Vettlingar prjónaðir langsum að sjónvarpssokkahætti, úr plötulopa.
Eva Rós Ólafsdóttir, 25 ára Hafnfirðingur: Apapeysa á litla kroppa, prjónuð ofan frá, í léttlopa.
Guðrún Axelsdóttir, 55 ára Hafnfirðingur: Síð kaðlapeysa úr plötulopa, Dúlluteppi Veru (heklað barnateppi), úr léttlopa, Hekla (hneppt barnapeysa ),úr einföldum plötulopa.
Helga Linnet, 35 ára frá Hafnarfirði: Fingravettlingar og húfa í stíl, léttlopi.
Hrönn Konráðsdóttir, 29 ára Reykvíkingur: Galdravettlingar, úr léttlopa.
Ilmur Dögg Gísladóttir, 32ja ára frá Reykjavík: Sjalið sumarskakki úr einbandi og Einföld peysa í öllum stærðum - með laskaermum, í hvaða garni sem er.
Hjónin Jóhann Jóhannsson og Guðný E. Kristjánsdóttir, sextug unglömb frá Stöðvarfirði: Eyrnaband að austan, úr plötulopa.
Jóhanna Hjaltadóttir, 90 ára Reykvíkingur: Prinsessutátiljur úr plötulopa.
Ingibjörg Ólafsdóttir, 51 árs, Reykjavík: Leikskólavettlingar úr sokkagarni og einbandi.
Kristrún Eiríksdóttir, 60 ára, Egilsstöðum: Rósastrengsvettlingar úr einbandi.
Margrét Gauja Magnúsdóttir, 33ja ára Hafnfirðingur: Ástarhúfan yndislega, úr léttlopa eða Dale freestyle.
Marín Þórsdóttir, 32ja ára Mosfellingur: Prjónaður kerrupoki, úr léttlopa, prinsessuspöng úr glimmergarni, heklaður froskur, úr bómullargarni.
Pom Ahnborg, 32ja ára, Stokkhólmi: Lambið krúttlega, úr krullugarni og hvítu ullarbandi, t.d. Kambgarn.
Ragnheiður Eiríksdóttir, 38 ára, frá Reykjavík: Peysan Lóa úr Nammigarninu eða einbandi.
Rán Ingvarsdóttir, 31 árs, Hafnarfirði: Prjónakrílin, úr hverju sem er.
Vilborg María Ástráðsdóttir, 34ra ára frá Hreppum á Suðurlandi: Bokki (lítil peysa úr einföldum plötulopa), Sóley í túni (litlir sokkar úr léttlopa), Hrafnaklukka (síð peysa eða kjólapeysa úr einföldum plötulopa og einbandi saman), Grámhildur (Útprjónuð hneppt peysa í fullorðinsstærð úr léttlopa).
Þorgerður Pálsdóttir, 29 ára, Reykjavík: Kaðlahúfa úr léttlopa.

Og svo eru það við sjálfar, og af því við erum frekastar þá erum við með 10 uppskriftir hver!.... :-)
Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, 33ja ára Hafnfirðingur: Trefill í gegn,Garðaprjónssmekkur, hekluð Frjálsmen (hálsmen), Hekluð skotthúfa, Girnilega stroffhúfan, Sjónvarpssokkar, Speisaðir vettlingar, Klukkuprjónsslá, Klukkuprjónskragi, og Hekluð alpahúfa.
Halldóra Skarphéðinsdóttir, 41 árs, Stokkhólmi: Prjónuð skotthúfa, Venjulegir lopavettlingar, Pilsið Ljúfa, Peysan Emil, Hekluprjón vettlingarnir Fjólublár draumur, Eyrnahlífahúfa, Sjalið Möbíus, Barnapeysa prjónuð á hlið, Húfa með lausu blómi og Ponsufléttuhúfan Rósa.

Tuesday, December 1, 2009

Við erum í 8. himni...!




Já, sjöundi himinn nær bara ekki yfir þetta!

Útgáfugleði Prjónaperla var haldin um síðastliðna helgi í Iðu og hún gekk vonum framar. Við erum í skýjunum yfir viðtökunum. Bjuggumst alls ekki við svona svakalega frábærum viðtökum! Það komu svo margir að við áttum fullt í fangi með að árita og spjalla, enda prjónarar og prjónabókaáhugafólk með eindæmum áhugavert og skemmtilegt fólk! Piparkökurnar kláruðust og bókin líka... En hún er aftur til núna - og á tilboðsverði eitthvað áfram - enda metsölubók vikunnar í Iðu :)

Prjónaperlur fást nú ... tja, nánast út um allt! Í helstu bókaverslunum og hannyrðabúðum, föndurbúðum, auk Hagkaupa, Krónunnar og á pósthúsum hér og þar um landið.

Meira prjón, meiri gleði...
Erla og Halldóra

Tuesday, November 24, 2009

Prjónaperlur komnar í verslanir!




Þá er fína flotta prjónabókin okkar komin út! Það var unun að handfjatla fyrstu eintökin...mmmm....
Hún er nú komin í nokkrar verslanir á Höfuðborgarsvæðinu! Við dreifðum henni í gær í Hagkaup og Eymundsson á Stór-Reykjavíkursvæðinu og svo höldum við áfram að dreifa henni í lok vikunnar þegar restin kemur úr prentun. Þá verður hún fáanleg í hannyrðaverslunum og í ýmsum verslunum úti á landi. Eins er hægt að nálgast hana hér hjá okkur.

Prjónum meira og meira... :)
Erla og Halldóra

Friday, November 20, 2009

Útgáfugleði Prjónaperla

Elskulegu prjónaperlur, vinir og aðdáendur nær og fjær,


Þið eruð öll hjartanlega velkomin að koma og fagna með okkur á útgáfugleði Prjónaperla sem verður haldin laugardaginn 28. nóvember n.k. kl. 11 - 13 í Iðu, Lækjargötu 2a, Reykjavík.

Fyrir utan almenna prjónagleði og fögnuð verður hægt að skoða eitthvað af prjónastykkjunum úr bókinni á staðnum, auk þess sem bókin verður til sölu á sérstöku tilboðsverði.

Við verðum auðvitað báðar á svæðinu,
hlökkum til að sjá ykkur!
Halldóra og Erla.



Monday, November 16, 2009

Friday, November 13, 2009

Þetta er allt að koma.....


Jæja, þá malla Prjónaperlur í prentsmiðjunni...
Við erum auðvitað mjög spenntar að sjá útkomuna. Svo mörg spennandi verkefni og skemmtilegar frásagnir, og flottar myndir sem við erum búnar að reyna að gera góð skil.... Oh, hvað það verður gaman að sjá þetta í eigin persónu !!

Bókin verður til sölu í verslunum um allt land, einnig verður hægt að panta hana með því að senda okkur línu á prjonaperlur@gmail.com og fá hana senda heim. Hún kemur til með að kosta um 3.600kr.

Við skellum fljótlega myndum úr bókinni hingað inn á bloggið svo þið getið fengið smjörþef af herlegheitunum og farið að láta ykkur hlakka til.

Útgáfugleðin verður svo líklegast haldin síðasta laugardaginn í nóvember - við látum ykkur að sjálfsögðu vita hvar og hvenær þegar nær dregur :-) !

.

Wednesday, November 4, 2009

Prjónaperlur í Mogganum í gær 3. nóvember

Við vorum á baksíðu Moggans í gær, þessi mynd og grein :)


PRJÓNAÆÐI meðal Íslendinga hefur sjaldan verið meira en um þessar mundir. Frænkurnar Erla Sigurlaug Sigurðardóttir og Halldóra Skarphéðinsdóttir fóru ekki varhluta af því og hófu í sumar söfnun uppskrifta hjá prjónurum úr grasrótinni. Afraksturinn má finna í bók þeirra Prjónaperlur - prjónað frá grasrótinni sem kemur út í lok mánaðar.

Í kjölfar þess að Erla missti vinnu sína sem kennari í sumar sótti hún Halldóru frænku sína heim til Stokkhólms í húsmæðraorlof, en það gerir hún reglulega. Halldóra sem er mikil prjónakona og annar höfunda prjónabókarinnar Prjóniprjón tók Erlu sem áður í handavinnukennslu. Vaknaði þá hugmyndin að grasrótaprjónabókinni.

„Mannfræðileg prjónabók“

"Þar sem svo mikil gróska er í prjóni á Íslandi vorum við forvitnar að vita hvað fólk væri að prjóna. Við höfðum samband við prjónara sem við vissum að færu ekki eftir hefðbundnum uppskriftum og prjónuðu og hekluðu frekar eftir eigin höfði" segir Erla og bætir við að söfnunin hafi gengið framar vonum. Í bókinni má finna um fimmtíu prjónauppskriftir eftir átján prjónara, hinar eiginlegu prjónaperlur úr grasrótinni, auk Erlu og Halldóru. Perlurnar eru hvaðanæva af landinu. „Við köllum bókina stundum „mannfræðilega prjónabók“ þar sem auk uppskriftanna fylgir léttur og húmorískur texti um hvern prjónara.“

Uppskriftirnar voru sérstaklega valdar af Erlu og Halldóru, sem létu ekki fjarlægðina stöðva samstarfið. Ekki er nema rúmt ár síðan Erla hóf að fikta af alvöru við prjónið. Halldóru má hins vegar flokka sem þungavigtaprjónara. Farin var sú leið að velja uppskriftir sem allir gætu prjónað. "Uppskriftirnar eru mjög fjölbreyttar og henta bæði byrjendum sem þaulvönum og er hver uppskrift einstök prjónaperla. Við lögðum upp með að hafa uppskriftirnar á mannamáli og það fór engin uppskrift í bókina sem ég skildi ekki sem byrjandi“.

Erla sem á von á sínu öðru barni eftir fáeinar vikur segir fjölda af uppskriftum hafa safnast til viðbótar. Hún á því allt eins von á að fleiri prjónaperlur líti dagsins ljós.

Hnotskurn
»Erla er mannfræðingur og Halldóra doktor í líffræði.
»Þær söfnuðu sjálfar uppskriftum, skrifuðu textann, tóku ljósmyndir og
settu bókina upp.


Wednesday, October 28, 2009

PRJÓNAPERLUR!


Já, það er ný prjónabók á leiðinni!!!..... Hrikalega skemmtilegt ....:-) Hún kemur út í nóvember, og við frænkurnar (og prjónabókahöfundarnir) erum á fullu að klára allt sem klára þarf. Síðustu daga erum við búnar að liggja yfir og lúslesa og lagfæra og breyta og bæta prjónauppskriftir..... okkur dreymir nú sléttar og brugðnar á nóttunni (ljúfir draumar)! og hugsum um útaukningar, lykkjufjölda og laskaermar þegar við stoppum á rauðu ljósi, og biðjum um ermina í staðinn fyrir smjörið við kvöldvarðarborðið....hahaha J.


Bókin heitir "PRJÓNAPERLUR - prjónað frá grasrótinni", sem er mjög lýsandi fyri bókina. Það vísar annars vegar til uppskriftanna í bókinni, og hins vegar til prjónafólksins sem deilir hér með sér uppskriftunum sínum. Í bókinni gefa 20 prjónaperlur (með okkur Erlu) hvaðanæva að af landinu, uppskriftirnar sínar. Alls konar venjulegt fólk, eins og þú og við, mjög ólíkir einstaklingar – en sem eiga það öll sameiginlegt að hafa verið bitnir af blessaðri prjónabakteríunni. Uppskriftirnar verða í kringum 45, þær eru mjög fjölbreyttar og kennir þar ýmissa grasa. Sumir gefa uppáhaldsuppskriftina sína, eða eitthvað sem þeir hafa þróað á löngum tíma, eitthvað sem þeir prjóna oft, sumir gefa uppskrift sem hefur sérstaka þýðingu fyrir þá, og sumt er hannað alveg sérstaklega fyrir þessa bók. Til dæmis. Og við erum svo ánægðar með allar uppskriftirnar! Finnst þær allar svo flottar og skemmtilegar, og langar helst að fitja upp á öllu saman strax í dag !!! Enda eru jú allar uppskriftirnar vandlega valdar af okkur - eins og fínustu perlur :). Svo er svo skemmtilegur texti um hverja prjónaperlu, svona léttur og húmorískur texti um hvern og einn. Og svo gefa allir upp prjónamottó eða einkunnarorð, þau eru mörg hver alveg frábær.....


Við erum svo spenntar! – getum ekki beðið eftir að bókin verði tilbúin...... En já, þá er að bretta upp ermarnar fyrir lokaátakið. Back to work!

Erla og Halldóra

Prjónaperlurnar við

Þetta erum við frænkurnar og útgefendur bókarinnar.


Og já - við erum alltaf svona sætar og glaðar!!!

Erla & Halldóra

Erla er litla frænka hennar Halldóru. En samt er hún stærri. Halldóra er föðursystir Erlu. Það eru átta ár á milli okkar frænkanna en aldursbilið hefur einhvern veginn horfið í áranna rás...! Halldóra passaði Erlu þegar hún var lítil og svo passaði Erla frumburð Halldóru þegar Erla var unglingur og Halldóra á fullu í háskólanámi. Svona höfum við alltaf hjálpast að. Samvinnan í Prjónaperlum gengur því undurvel, þrátt fyrir miklar fjarlægðir, en Erla býr í Hafnarfirði og Halldóra í Svíþjóð! Þangað flutti Halldóra fyrir 10 árum þegar hún ákvað að verða gáfaðri og fara í doktorsnám í líffræði. Erla hefur verið með stöðugan áróður á Halldóru síðastliðin ár um að koma HEIM. Heim til hennar - en Halldóra er víst orðin of mikilvæg og upptekin við rannsóknir í sænska Háskólanum sínum og kann orðið aðeins of vel við sænskar kjötbollur og kanilbulla.


Erla passar samt upp á að Halldóra haldi áfram að vera Íslendingur með öllum brögðum og ráðum eins og að senda henni reglulega lakkrís, kleinur, hangikjöt og grænar baunir. Til að minnka bilið á milli okkar eru heimsóknir reglulega á dagskrá og snúast þær undanfarin ár að miklu leyti um handavinnu. Erla mætir reglulega til Stokkhólms í húsmæðraorlof og notar tímann í Handavinnuskóla Halldóru eins og hún kallar það. Halldóra er nefninlega prjóna- og heklsjéníið hennar Erlu, sem hefur lært ansi margt af henni. Sérstaklega þolinmæði og nákvæmni, enda er Halldóra róleg og nákvæm vísindakona. Erlu er hins vegar vel lýst sem glaðværu og nokkuð hvatvísu fljúgandi fiðrildi sem lifir í núinu. Hún þrífst illa í ládeyðu og vill framkvæma frekar en bíða. Halldóra hefur tekið sér það til fyrirmyndar að einhverju leyti og er nú að æfa sig í að "kýla á hlutina" í stað þess að melta þá leeeengi (eins og einhver Svíi!).

Við erum líka með nokkuð ólíkan fatasmekk. Halldóra reynir að taka sér litagleði í fatastíl Erlu til fyrirmyndar og Erla reynir að kaupa stundum svörtu skóna í stað þeirra appelsínugulu - að hætti Halldóru. Hins vegar má furðu sæta hversu samtaka við erum þegar kemur að prjóneríi. Það var alls ekkert erfitt að velja prjónavörur í bókina, þar vorum við á sömu línu.

Saman erum við bara svo flott blanda.
Og "Prjónaperlur" eru afrakstur ólíkra frænkna sem njóta styrkleika hvorar annarrar :)

Tuesday, October 20, 2009

Prjónaperlur - prjónað frá grasrótinni

Prjónaperlur er prjónabókin í ár - kemur út í nóvember...!

Kveðja,
Erla og Halldóra