Tuesday, December 22, 2009

Prjónaperlan Vilborg



Hún Vilborg María er súperdúperPrjónaperla. Síprjónandi - ásamt því að vera með fullt hús af börnum og búskap með rollur og hross (og karl) - og vinnu sem leikskólastjóri (!). Manni dettur helst í hug að loftið þarna í sveitinni á Skarði (í Hreppum á Suðurlandi) þar sem hún býr hljóti að vera eitthvað extra orkuríkt, eða sólarhringarnir eitthvað extra langir, miðað við hversu miklu hún kemur í verk. Reyndar segir Vilborgu skýringuna á því vera þá að hún notar öll tækifæri sem gefast til að prjóna. Og er orðin mjög fær í að hræra í pottum, skipta á bleyjum, gefa brjóst og prjóna á sama tíma!! Svo er hún aldrei farþegi í bíl nema prjónandi - annað er prjónatímasóun á háu stigi.... :-)

Hún er sú prjónaperla sem á flest stykki í bókinni (fyrir utan okkur sjálfar, höfundana). Við bara gátum ekki gert upp á milli þeirra, okkur fannst það allt svo flott og langaði svo til að hafa allt með!

Hún er til dæmis höfundur litlu lopapeysunnar "Bokki", sem er úr einföldum plötulopa, og er því svo létt og þjál - en heit. Og svo yndislega einföld og skemmtileg. Munstrið í henni er að hluta til prjónað brugðið sem gefur mjög sérstakan stíl á flíkina.


Svo á hún líka kjólapeysuna "Hrafnaklukka", sem bæði má hafa sem peysu, eða ef hún er höfð síð, sem kjól. Hún er úr einföldum plötulopa og einbandi saman, frekar víð peysa með vítt hálsmál. Í munsturbekknum eru svo fallegir fjólubláir litir saman - einsog í blóminu hrafnaklukka. Munsturbekkurinn er prjónaður með plötulopa og einbandi saman eða tvöföldu einbandi - kemur mjög skemmtilega út.

Hér viljum við nota tækifærið og koma með ábendingu í sambandi við stroffið í Hrafnaklukku. Í henni er mjög flott stroff sem er prjónað svona: 1 slétt lykkja og 2 lykkjur perluprjón. Sem þýðir að lykkjufjöldinn sem fitjaður er upp þarf að ganga upp í töluna 3. Lykkjufjöldinn sem gefinn er upp hjá okkur í bókinni gerir það ekki....! Í stað þess að standa "Fitjið upp 119 (131) 143 lykkjur" ætti það því að vera: "Fitjið upp 120 (132) 144 lykkjur". Og sleppa þá að auka út um 1 lykkju þegar stroffi lýkur. Sömuleiðis í ermunum, þar á að standa: "Fitjið upp 42 (51) 60 lykkjur og prjónið stroff einsog í bolnum í 15 umferðir. Eftir stroffið er aukið út um 2 (1) 0 lykkjur: 44 (52) 60 lykkjur."




"Grámhildur góða" er ótrúlega falleg útprjónuð og hneppt peysa úr léttlopa. Hana þarf helst að skoða í eigin persónu til að munstrið og "upplifunin" af flíkinni skili sér að fullu.... :-) Útprjónið á berustykkinu er eitthvað svo látlaust en samt "elegant", og gerir flíkina svo sérstaka.


Vilborg á líka uppskriftina að litlu sokkunum "Sóley í túni" í bókinni. Þeir eru prjónaðir út grænum léttlopa og einbandi, með háu stroffi, heitir og voða góðir fyrir litla fætur. Svo er saumuð ein lítil sóley í þá - sem lífgar upp á allt í kring - alveg einsog þegar maður rekst á litla sóley í túni.
:-).

Svo er Vilborg með prjónablogg líka (!) sem hún laumar nokkrum línum og myndum á af og til þegar ró er komin í kotið seint á kvöldin, það er hér, kíkiði endilega á og skiljið eftir kveðju: www.lopinn.blogspot.com.

2 comments:

  1. ég er búin að prjóna fjögur pör af sokkunum, hennar. Frábær í vagninn og svo fóru þrjú pör í jólapakka til þeirra sem eiga "vagna"-börn :) mæli með þeim!
    -Marín

    ReplyDelete
  2. VÁ - Marín þú ert svo öflug!
    En já, þetta eru geggjaðir sokkar :)
    kv,
    Erla - verðandi vagnamamma (með vorinu!)

    ReplyDelete